Sigurður Þ. Ragnarsson

Miðflokkurinn kynnir Sigurð Þ. Ragnarsson bæjarfulltrúa sem skipar 1. sætið á lista Miðflokksins og óháðra í Hafnarfirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Sigurður Þórður, fæddist í Hafnarfirði 13. febrúar 1967 og er því 55 ára. Foreldrar hans eru Ragnar Jóhannesson stýrimaður og skipstjóri og síðar slökkviliðsstjóri fæddur í Hafnarfirði 1930 og Mjöll Sigurðardóttir skrifstofumær, fædd í Reykjavík 1937 (dáin 1995). Faðir Sigurðar er Hafnfirðingur af svonefndri Hábæjarætt. Í móðurætt er Sigurður ættaður frá Snæfellsnesi og Breiðafjarðareyjum.

Eiginkona Sigurðar er Hólmfríður Þórisdóttir fædd 1966. Og eiga þau þrjá stráka, Þóri Snæ 33 ára, Árna Þórð 29 ára og Bessa Þór 23 ára.

Sigurður ólst upp í Hafnarfirði og hefur búið þar að mestu. Hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut frá Flensborg 1987. Þaðan lá leiðin í háskóla þar sem hann lagði stund á nám í jarðfræði, efnafræði og veðurfræði. Hann öðlaðist kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla 1996.

Á unglingsárum starfaði Sigurður hjá Álverinu í Straumsvík við almenn verkamannastörf. Á háskólaárunum starfaði hann sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli og í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Hann starfaði á Raunvísindastofnun Háskólans um tíma, sérfræðingur á efnafræðistofu Hitaveitu Reykjavíkur (nú Orkuveitan), einnig hjá Selfossveitum bs. (Hitaveitu Selfoss) og verið framhaldsskólakennari í stærðfræði og raungreinum í áratugi, bæði á Selfossi, FSu. og á höfuðborgarsvæðinu í FÁ, MK og Flensborg. Starfaði um þriggja ára skeið sem fréttamaður á RÚV sjónvarp, veðurfræðingur á Stöð 2 í 16 ár og starfar nú sem slíkur á Hringbraut, sjónvarpsstöð. Hann hefur rekið sitt eigið fyrirtæki síðan 2003 sem heitir því frumlega nafni Veður ehf.

Áhugamál Sigurðar eru fjölbreytt. Menntun hans endurspeglar mikinn áhuga á náttúrunni. Ferðalög á öllum tíma árs heilla hann mjög. Hálendisferðir geta verið magnaðar. Hann er mikill hundamaður og hefur átt hund frá 12 ára aldri. Hann hefur mikinn áhuga á gömlum uppgerðum bílum. Hann elskar Spán. Þá heilla hann góðar fræðibækur á sviði læknis-, lyfja- og náttúrufræða.

Sigurður hefur tekið virkan þátt í stjórnmálum frá unga aldri og haft mestan áhuga á nærumhverfinu. Velferðarmál og málefni eldri borgara eru honum þó umfram annað einkra hugleikinn, enda margt sem þarf að ráðast í þar. Húsnæðimál í Hafnarfirði hafa því miður ekki gengið eins og nauðsynlegt er til að viðhalda nauðsynlegu framboði á húsnæði til að koma í veg fyrir fækkun íbúa og forðast þá miklu spennu sem skapast hefur á húsnæðismarkaði.