Arnhildur Ásdís Kolbeins

Miðflokkurinn og óháðir í Hafnarfirði kynna Arnhildi Ásdísi Kolbeins sem situr í 2. sæti listans.

Arnhildur Ásdís Kolbeins er 60 ára og hefur búið í Áslandinu í tæp 20 ár ásamt eiginmanni sínum Þórarni Kristjáni Ólafssyni verkfræðingi. Þau eiga samtals sjö börn sem öll eru á fullorðinsaldri nema yngsti sonurinn sem er 13 ára og er í Áslandsskóla. Þá eiga þau átta barnabörn.

Arnhildur var deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu í 13 ár en hóf síðan atvinnurekstur ásamt eiginmanni sínum fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þau reka í dag ásamt fleirum þrjú fyrirtæki, RST Net sem sinnir sérhæfðri þjónustu við orkuiðnað, Ljósvirkja og Hraunsali sem öll eru staðsett í Hafnarfirði.

Arnhildur er viðskiptafræðingur að mennt og með MPM meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands og ML meistaragráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst, með áherslu á verktaka- og útboðsrétt og skipulagslögfræði.

Arnhildur er fædd og uppalin í sveit og er mikið náttúrubarn. Hennar helstu áhugamál eru útivist, göngur, skógrækt og garðyrkja. Jafnframt hefðbundnum störfum sínum í Hafnarfirði er hún skógarbóndi á Vestfjörðum, þar sem fjölskyldan ræktar upp skóg á 40 hektara landsvæði.

Arnhildur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn t.d. sem formaður Miðflokksdeildar Hafnarfjarðar um tíma og sem formaður kjördæmafélags Suðvesturkjördæmis.

Á núverandi kjörtímabili hefur Arnhildur setið í umhverfis- og framkvæmdaráði og innkauparáði auk þess að vera varamaður í skipulags- og byggingaráði og fræðsluráði. Þá hefur hún setið í starfshópi um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og starfshópi um endurskoðun húsnæðisstefnu Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Arnhildur er ósérhlífin, leggur mikinn metnað í það sem hún tekur sér fyrir hendur og hefur ánægju af því að takast á við nýjar áskoranir. Hún hefur sterkar skoðanir og góða þekkingu á málefnum samfélagsins. Rökhyggja og skynsemi við úrlausn mála ásamt áherslu á íbúalýðræði eru þau gildi Miðflokksins og óháðra sem höfða mest til Arnhildar og þess vegna vill hún leggja sitt af mörkum með Miðflokknum og óháðum til að gera gott samfélag enn betra.